Georg Anton Friedrich Ast
Georg Anton Friedrich Ast (29. desember 1778 – 31. október 1841) var þýskur heimspekingur og fornfræðingur.
Hann fæddist í Gotha en var menntaður í háskólanum í Jena. Hann varð stundakennari í Jena árið 1802 og þremur árum seinna 1805 varð hann prófessor í klassískum bókmenntum við háskólann í Landshut þar sem hann starfaði til ársins 1826, en þá var skólinn færður til München. Þar bjó hann til æviloka, en hann lést 1841.
Hann var gerður meðlimur í vísindaakademíunni í Bæjaralandi í viðurkenningarskyni fyrir starf sitt. Hann er einkum þekktur fyrir verk sín um samræður Platons frá síðasta aldarfjórðungi ævi sinnar. Bók hans Plato's Leben and Schriften frá 1816 var fyrsta af mörgum gagnrýnum textum hans um ævi og störf Platons sem áttu rót sína að rekja til innganga Schleiermachers og sögulegrar efastefnu Niebuhrs og Wolfs. Hann vantreysti hefðinni og tók til skoðunar nokkrar af þeim samræðum Platons sem almennt voru taldar bestar og bar saman við aðrar samræður. Á grundvelli innri vitnisburðar hafnaði hann því að þær samræður sem almennt voru ranglega eignaðar Platoni (svo sem Epinomis, Mínos, Þeages, Elskendurnir, Kleitofon, Hipparkos og Eryxías) væru ósviknar, en hann hafnaði einnig samræðunum Menoni, Evþýdemosi, Karmídesi, Lýsis, Lakkesi, Alkibíadesi fyrra og síðara, Hippíasi meiri og Hippíasi minni, Jóni, Evþýfroni, Málsvörn Sókratesar, Krítoni, og jafnvel (gegn skýrum vitnisburði Aristótelesar) Lögunum. Hann skipti þeim samræðum sem hann taldi vera ósviknar í þrennt:
- Þær elstu, sem einkennast fyrst og fremst af skáldlegum og leikrænum þáttum, þ.e. Prótagóras, Fædros, Gorgías og Fædon
- Annar hópurinn, samræður sem einkennast einkum af rökræðulist og nákvæmni, þ.e. Þeætetos, Fræðarinn (Sófistinn), Stjórnvtiringurinn (Stjórnspekingurinn eða Stjórnmálamaðurinn), Parmenídes og Kratýlos
- Þriðji hópurinn, samræður sem sameina vel báða eiginleika, þ.e. Fílebos, Samdrykkjan, Ríkið, Tímajos og Krítías
Hann fylgdi verki sínu eftir með útgáfu á verkum Platons (í tveimur bindum sem komu út á árunum 1819-1832) ásamt latneskri þýðingu og skýringum. Síðasta verk hans var Lexicon Platonicum (í þremur bindum sem komu út á árunum 1834-1839), sem enn er notast við.
Auk verka sinna um Platon samdi hann bækur um fagurfræði, sögu heimspekinnar og fornfræði og textafræði. Í verkum sínum um fagurfræði sameinaði hann skoðanir Schellings og Winckelmanns, Lessings, Kants, Herders, Schillers og annarra. Verk hans um sögu heimspekinnar eru prýdd gagnrýninni fræðimennsku fremur en frumlegri hugsun en þykja áhugaverðar fyrir þær sakir að þær endurspegla viðhorfið sem nú er vel þekkt að saga heimspekinnar sé ekki saga einstakra skoðana, heldur hugsunar almennt. Hann var meðal þeirra fyrstu sem settu fram lögmál um þróun hugsunar.
Helstu ritverk
[breyta | breyta frumkóða]- System der Kunstlehre (1805)
- Grundriss der Aesthetik (1807)
- Grundlinien der Philosophie (1807, endurútgefin 1809)
- Grundriss einer Geschichte der Philosophie (1807 og 1825)
- Grundlinien der Philologie (1808)
- Grundlinien der Grammatik, Hermeneutik and Kritik (1808)
- Hauptmomente der Geschichte der Philosophie (1829)
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Georg Anton Friedrich Ast“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 17. október 2005.