Luton
Luton er borg í Bedford-skíri í Englandi, 50 kílómetrum norðvestur af Lundúnum. Luton-flugvöllur er innan bæjarmarkanna, en hann er einn stærsti og mikilvægasti flugvöllurinn sem þjónar höfuðborginni. Bærinn var um áratugaskeið mikilvæg miðstöð bifreiðaiðnaðarins í Bretlandi. Fyrr á árum var þar einnig umfangsmikil stráhattagerð og eru íbúar borgarinnar enn í dag stundum kallaðir „hattarar“. Íbúar eru um 214 þúsund talsins (2018).
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Forsaga
[breyta | breyta frumkóða]Elstu mannvistarleifar á svæðinu í og umhverfis Luton eru 250 þúsund ára gamlar. Eftir því sem ísaldarjökullinn hopaði við byrjun síðasta hlýskeiðs hófst mannabyggð að nýju á svæðinu um 8 þúsund árum fyrir Krist. Allnokkuð er um minjar frá nýsteinöld (um 4.500-2.500 f.Kr.) Einkum er þar um að ræða grafreiti steinaldarmanna, sem veita vísbendingar um talsverða búsetu en þó án þéttbýliskjarna.
Fyrsti eiginlegi bærinn var Durocobrivis (í dag Dunstable) á tímum Rómverja, en undir þeirra stjórn var Luton-svæðið þó að mestu strjálbýlt landbúnaðarsvæði.
Talið er að bæjarmyndun í Luton hafi byrjað á 6. öld, þegar Saxar reistu þar varðstöð við ánna Leu. Vinsæl en þó ekki óumdeild kenning um uppruna örnefnisins Luton er að það sé afbökun af Lea-tun eða bær við Leu. Önnur tilgáta er sú að nafnið vísi í keltneska guðinn Lugh. Í Dómsdagsbókinni, kunnri enskri jarðabók frá elleftu öld, er þorpið kallað nöfnunum Loitone og Lintone, en íbúarnir sagðir 7-800 talsins.
1100 til 1800
[breyta | breyta frumkóða]Róbert, jarl af Gloucester, sem var launsonur Hinriks fyrsta lét árið 1121 hefja byggingu kirkju heilagrar Maríu í miðbæ Luton, sem enn stendur. Atvinnulíf bæjarins stóð í blóma á seinni hluta miðalda og geta heimildir um sex vatnsmyllur í Luton, sem nýttu straum árinnar Leu. Í upphafi þrettándu aldar kom Luton óbeint við sögu ensku hirðarinnar þegar Jóhann landlausi veitti einum manna sinna, Sir Fawkes de Breauté, staðinn sem óðal sitt. Sir Fawkes de Breauté, sem var hermaður af Normannaættum, var áberandi persóna í væringum þessara ára. Setur hans í Lundúnum var nefnt Fawkes Hall, sem afbakaðist með tímanum í Vauxhall. Þar sem einkennistákn Sir Fawkes var mynd af goðsagnaverunni griffíni, myndaðist þar í fyrsta sinn tenging milli Luton og Vauxhall annars vegar en griffíns hins vegar.
Um 1240 er nafn bæjarins ritað Leueton í heimildum og var þar haldinn markaður á hverju sumri fyrir sveitirnar umhverfis. Eldsvoði lagði bæinn að mestu í rúst árið 1336, en hann var skjótt byggður upp á nýjan leik.
Á sextándu öld hófst umfangsmikil múrsteinaframleiðsla í og umhverfis Luton. Í kjölfarið urðu múrsteinar helsta byggingarefni bæjarbúa. Öld síðar urðu bæjarbúar kunnir fyrir hattagerð og þá einkum framleiðslu á vinsælum stráhöttum. Hattagerðin varð langveigamesti iðnaður bæjarins. Hattar eru enn í dag gerðir í Luton, en þó í mun minni mæli en áður.
19. öld
[breyta | breyta frumkóða]Íbúar Luton voru rétt rúmlega 3.000 í byrjun 19. aldar. Þeim hafði fjölgað í 10.000 um öldina miðja og þegar tuttugusta öldin gekk í garð var íbúafjöldinn rétt tæplega 40.000. Vöxtur þessi var meðal annars mögulegur vegna tenginga við breska járnbrautarkerfið á fyrri helmingi aldarinnar.
Gasstöð var reist í Luton árið 1834 með tilheyrandi gaslýsingu á götum úti og bæjarbúar eignuðust sitt fyrsta ráðhús árið 1847. Ári síðar braust út kólerufaraldur í bænum, sem ýtti undir gerð vatnsveitu og holræsakerfis nokkrum árum síðar. Árið 1885 eignaðist bærinn loks atvinnuknattspyrnulið, Luton Town F.C., það fyrsta sinnar tegundar í Suður-Englandi.
20. öld
[breyta | breyta frumkóða]Hattaiðnaðurinn hélt mikilvægi sínu í atvinnulífi Luton fram eftir tuttugustu öldinni og náði framleiðslan hámarki sínu á fjórða áratugnum. Eftir það fór hún hratt dvínandi og aðrar greinar tóku við keflinu. Í hugum margra hætti Luton að vera fyrst og fremst þekkt sem hattaborg en varð bílaborg, eftir að bifreiðaframleiðandinn Vauxhall flutti höfuðstöðvar sínar þangað árið 1905 og reisti í kjölfarið stærstu bílaverksmiðju Bretlandseyja. Af öðrum kunnum fyrirtækjum í Luton á upphafsárum tuttugustu aldar mætti nefna flugvélaframleiðandann Hewlett & Blondeau.
Ráðhús bæjarins var brennt til grunna árið 1919 þegar samkoma í tilefni stríðslokadagsins snerist upp í mótmæli uppgjafahermanna og atvinnulausra verkamanna. Nýtt ráðhús var reist árið 1936, tveimur árum áður en bæjarfélagið kom upp og hóf rekstur Luton-flugvallar. Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar gegndu Vauxhall-verksmiðjurnar mikilvægu hlutverki við framleiðslu skriðdreka og varð bærinn því augljóst skotmark fyrir lofthernað Þjóðverja, sem olli miklum skemmdum.
Mikil endurbygging átti sér stað í Luton á árunum eftir stríð, þar sem mikið af gömlu og lélegu húsnæði var rifið. Stór hluti gamla miðbæjarins þurfti svo að víkja á ofanverðum sjöunda áratugnum til að rýma fyrir Arndale-verslunarmiðstöðinni, yfirbyggðum miðbæjarkjarna sem um árabil var eitt helsta kennileiti staðarins. Árið 2000 varð atvinnulíf borgarinnar fyrir þungu höggi þegar Vauxhall-verksmiðjurnar, stærsti vinnuveitandinn í samfélaginu, tilkynntu um lokun.
Íþróttir
[breyta | breyta frumkóða]Luton Town er knattspyrnulið borgarinnar.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „History_of_Luton“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 21. maí 2018.