Fara í innihald

Nafnskipti

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Nafnskipti (forngríska: μετωνυμία, metōnymia) eru stílbragð sem felst í að orði er skipt út fyrir annað orð sem tengist því fyrra á einhvern hátt. Í nafnskiptum má til dæmis nefna orsök fyrir afleiðingu eða afleiðingu fyrir orsök, eins má nefna höfund fyrir höfundarverk, ílát fyrir innihald eða bústað fyrir embætti og margt fleira. Dæmi um nafnskipti:

  • Hvíta húsið sendi frá sér yfirlýsingu. (Átt er við bandaríska forsetaembættið.)
  • Ég drakk tvo kaffibolla. (Átt er við innihald bollanna.)

Nafnskipti eru náskyld meðskilningi og telja sumir að ekki sé ástæða til að greina þar á milli. Einnig er skyldleiki með nafnskiptum og myndhverfingu en munurinn er sá að í myndhverfingu þar sem A er táknað með B er eitthvað líkt með A og B en í nafnskiptum þar sem A er táknað með B eru A og B tengd á einhvern hátt án þess að vera lík.

  • Árni Sigurjónsson (1991). Bókmenntakenningar fyrri alda. Heimskringla. ISBN 9979-3-0240-2
  • Eco, Umberto (1976). A Theory of Semiotics. Indiana University Press. ISBN 0-253-20217-5
  • Jakob Benediktsson (1983). Hugtök og heiti í bókmenntafræði. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands.