Imre Nagy
Imre Nagy | |
---|---|
Forsætisráðherra Ungverjalands | |
Í embætti 4. júlí 1953 – 18. apríl 1955 | |
Forveri | Mátyás Rákosi |
Eftirmaður | András Hegedűs |
Í embætti 24. október 1956 – 4. nóvember 1956 | |
Forveri | András Hegedűs |
Eftirmaður | János Kádár |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 7. júní 1896 Kaposvár, Ungverjalandi, austurrísk-ungverska keisaradæminu |
Látinn | 16. júní 1958 (62 ára) Búdapest, Ungverjalandi |
Dánarorsök | Hengdur |
Stjórnmálaflokkur | Ungverski sósíalíski verkamannaflokkurinn |
Maki | Mária Égető |
Börn | 1 |
Starf | Stjórnmálamaður |
Imre Nagy (7. júní 1896 – 16. júní 1958) var ungverskur kommúnískur stjórnmálamaður sem var tvisvar forsætisráðherra í ungverska alþýðulýðveldinu á sjötta áratugnum. Nagy var einn af leiðtogum uppreisnar sem Ungverjar gerðu gegn sovéskum yfirráðum í Ungverjalandi árið 1956. Uppreisnin misheppnaðist og Nagy var í kjölfarið handtekinn og tekinn af lífi tveimur árum síðar.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Imre Nagy fæddist til fátækrar bændafjölskyldu árið 1896. Hann hlaut litla menntun en gerðist ungur lærlingur hjá lásasmið og komst í kynni við ungversku verkalýðshreyfinguna. Hann gekk í kjölfarið í ungverska Jafnaðarmannaflokkinn.[1]
Árið 1915 var Nagy kvaddur til herþjónustu í fyrri heimsstyrjöldinni og var sendur með austurrísk-ungverska hernum á austurvígstöðvarnar. Hann var tekinn til fanga af Rússum og var enn stríðsfangi í Rússlandi þegar rússneska byltingin braust út árið 1917. Nagy tók þátt í byltingunni við hlið Bolsévika og myndaði síðan náið samband við sovéskan verkalýð. Hann sneri heim til Ungverjalands árið 1921 en var rekinn úr Jafnaðarmannaflokknum stuttu síðar. Hann gekk því í hinn ólöglega ungverska Kommúnistaflokk og reis til nokkurra metorða innan hans.[1]
Nagy flúði frá Ungverjalandi árið 1930 og flutti til Sovétríkjanna. Hann bjó þar næstu fjórtán árin og vann sem forstöðumaður á samyrkjubúi. Nagy sneri aftur til Ungverjalands árið 1944 og varð landbúnaðarráðherra í nýrri kommúnistastjórn landsins árin 1945 til 1946. Næstu árin gegndi hann ýmsum ábyrgðarstöðum í ríkisstjórn nýja ungverska alþýðulýðveldisins og var meðal annars innanríkisráðherra, þingforseti og varaforsætisráðherra. Árið 1953 varð Nagy formaður ráðherraráðsins, eða forsætisráðherra, eftir að Mátyás Rákosi neyddist til að segja af sér.[1]
Sem forsætisráðherra boðaði Nagy gagngera stefnubreytingu frá stjórnarháttum Rákosi, sem hafði verið strangtrúaður stalínisti. Hann tók upp nýja stefnu í atvinnumálum með aukinni áherslu á framleiðslu neysluvarnings og frjálslegri stjórn landbúnaðarmála. Stefna hans naut talsverðra vinsælda innanlands en ráðamenn í Sovétríkjunum voru lítt hrifnir af henni. Þetta leiddi til þess að Nagy var neyddur til að segja af sér sem forsætisráðherra árið 1955.[1]
Ungverska uppreisnin
[breyta | breyta frumkóða]Þegar uppreisnin í Ungverjalandi braust út árið 1956 ákvað ungverska stjórnin að gera Nagy að forsætisráðherra á ný til að reyna að sefa mótmælendurna. Nagy skoraði á uppreisnarmennina að leggja niður vopn og tilkynnti í útvarpsávarpi að þeim sem hlýddu kalli hans yrði ekki refsað. Áskorun Nagy hafði engin áhrif heldur sótti uppreisnin í sig veðrið og uppreisnarmenn náðu stjórn á stórum hlutum Ungverjalands. Nagy ákvað að koma til móts við uppreisnarmennina og lýsti því yfir að ný stjórn skyldi stofnuð á lýðræðislegri grundvelli en áður og myndi semja við Sovétmenn um brottför sovéskra hermanna frá landinu.[2]
Yfirlýsingar Nagy nægðu ekki til að binda enda á uppreisnina og bardagar héldu áfram víðs vegar um landið. Þann 28. október árið 1956 birtist Nagy í sjónvarpi og gerði grein fyrir því að sovésk stjórnvöld hefðu fallist á brottflutning sovéskra hermanna frá Ungverjalandi. Hann lýsti því yfir að merki kommúnismans yrði ekki lengur á ungverska fánanum, að öryggissveitir ríkisins skyldu leystar upp og að stofnuð skyldi þjóðstjórn með aðkomu fjögurra stjórnmálaflokka. Hann neitaði því að uppreisn hefði verið gerð og sagði að um væri að ræða hreyfingu til að tryggja sjálfstæði Ungverjalands.[2] Nagy lýsti því jafnframt yfir að Ungverjaland skyldi segja sig úr Varsjárbandalaginu og biðlaði til Sameinuðu þjóðanna um að tryggja hlutleysi landsins.
Þvert á yfirlýsingar Sovétmanna um að hersveitir þeirra hygðust hafa sig á brott fóru sovéskar hersveitir og skriðdrekar brátt að streyma yfir landamærin til Ungverjalands. Þann 4. nóvember lýsti sovéska stjórnin því yfir að ný ríkisstjórn hefði verið mynduð í Ungverjalandi undir forystu János Kádár og að hún hefði kallað á stuðning sovéska hersins til að vinna bug á Nagy og uppreisnarmönnunum.[2]
Sovéska hernum tókst að sigra uppreisnarmennina og hertaka Búdapest á sex dögum. Þegar herinn nálgaðist höfuðborgina sótti Nagy um hæli í sendiráði Júgóslavíu og lokaði sig þar inni. Eftir að uppreisninni var lokið og Kádár var tryggur í sessi sem nýr forsætisráðherra samdi Nagy við hann um að hann skyldi fá að yfirgefa landið, en um leið og Nagy kom út úr sendiráðinu handtók sovéska lögreglan hann og flutti hann til fangavistar í Rúmeníu. Þann 14. júní árið 1958 var Nagy dæmdur til dauða fyrir aðild sína að uppreisninni og síðan hengdur í Búdapest tveimur dögum síðar.[3]
Nagy var grafinn í ómerktri gröf eftir dauða sinn. Árið 1989 hlaut Nagy uppreist æru, lík hans var grafið upp og honum veitt sómasamleg útför ásamt öðrum þátttakendum úr uppreisninni 1956.[4]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 „Kotungssonurinn Imre Nagy kemur aftur til ríkis“. Þjóðviljinn. 25. október 1956. Sótt 23. maí 2019.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 „Uppreisnin í Ungverjalandi 1956“. Morgunblaðið. 4. nóvember 1976. Sótt 23. maí 2019.
- ↑ „Hvað varð um Imre Nagy?“. Morgunblaðið. 8. nóvember 1986. Sótt 23. maí 2019.
- ↑ „Uppgjörið við uppreisnina hafið“. Þjóðlíf. 1. maí 1989. Sótt 23. maí 2019.
Fyrirrennari: Mátyás Rákosi |
|
Eftirmaður: András Hegedűs | |||
Fyrirrennari: András Hegedűs |
|
Eftirmaður: János Kádár |