Ulf Kristersson
Ulf Kristersson | |
---|---|
Forsætisráðherra Svíþjóðar | |
Núverandi | |
Tók við embætti 18. október 2022 | |
Þjóðhöfðingi | Karl 16. Gústaf |
Forveri | Magdalena Andersson |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 29. desember 1963 Lundi, Svíþjóð |
Stjórnmálaflokkur | Hægriflokkurinn |
Maki | Birgitta Ed (g. 1991) |
Börn | 3 |
Háskóli | Uppsalaháskóli |
Starf | Stjórnmálamaður |
Ulf Hjalmar Ed Kristersson (f. 29. desember 1963) er sænskur stjórnmálamaður, hagfræðingur og rithöfundur. Hann hefur verið forsætisráðherra Svíþjóðar frá árinu 2022 og leiðtogi Hægriflokksins frá árinu 2017. Hann var áður félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Fredriks Reinfeldt frá 2010 til 2014.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Ulf Kristersson er fæddur í Lundi og bjó þar til fimm ára aldurs. Eftir það ólst hann upp í Torshälla fyrir utan Eskilstuna.[1] Foreldrar hans voru hagfræðingurinn Lars Kristersson (1938-2015) og aðjúnktinn Karin Kristersson (fædd Axelsson, 1938).
Kristersson gekk í gagnfræðaskóla í Eskilstuna og útskrifaðist þaðan árið 1983. Hann gegndi síðan herþjónustu í fyrstu merkjasveit Upplands í Enköping frá 1983 til 1984.[2] Kristersson flutti síðar til Uppsala til að nema viðskiptahagfræði og félagshagfræði við Uppsalaháskóla. Hann útskrifaðist þaðan árið 1992. Á námsárunum var hann meðlimur í stúdentahreyfingunni Södermanlands-Nerikes Nation og var meðal annars fundarritari hennar. Árið 2013 varð hann heiðursmeðlimur samtakanna.[2]
Kristersson býr í Strängnäs og hefur verið kvæntur Birgittu Ed frá árinu 1991. Hjónin eiga saman þrjár dætur sem þau ættleiddu frá Kína.[3] Ed hefur unnið sem almannatengill en hóf nám til þess að gerast prestur árið 2018.[4]
Kristersson var markaðsstjóri útgáfufélagsins Timbro Publisher frá 1995 til 1998, samhliða störfum sínum sem þingmaður á sænska ríkisþinginu.[2] Árið 1994 gaf Kristersson út bókina Non-working Generation þar sem hann gagnrýndi norræna velferðarkerfið og sænska velferðarríkið, sem hann líkti við aðskilnaðarstefnuna. Kristersson sagði kerfið stuðla að framtaksleysi og aðgerðaleysi.[5][6]
Á árunum 2000 til 2002 vann Kristersson sem samskiptastjóri hjá upplýsingatæknifyrirtækinu Connecta í Stokkhólmi.[7]
Kristersson var framkvæmdastjóri sænsku Ættleiðingamiðstöðvarinnar frá 2003 til 2005.[7]
Stjórnmálaferill
[breyta | breyta frumkóða]Þann 1. september 2017 tilkynnti Kristersson að hann myndi bjóða sig fram til embættis leiðtoga Hægriflokksins eftir afsögn Önnu Kinberg Batra.[8] Þann 21. september var hann tilnefndur af kjörstjórn flokksins sem nýr leiðtogi.[9]
Kristersson var félagsmálaráðherra í ríkisstjórn Fredriks Reinfeldt frá 2010 til 2014.[2]
Í þingkosningum Svíþjóðar þann 11. september 2022 hlaut bandalag Hægriflokksins, Svíþjóðardemókrata, Kristilegra demókrata og Frjálslynda flokksins samanlagðan 176 þingsæta meirihluta, þremur sætum meira en bandalag vinstriflokkanna. Kristersson hlaut stjórnarmyndunarumboð í kjölfar kosninganna[10] og þann 14. október var tilkynnt að Kristersson myndi taka við sem forsætisráðherra Svíþjóðar í minnihlutastjórn Hægriflokksins, Kristilegra demókrata og Frjálslynda flokksins sem Svíþjóðardemókratar myndu verja vantrausti.[11]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Född i Lund, gillar Kent, gjort milen på 43.04. Här är allt du inte visste om Ulf Kristersson“. Sydsvenskan. Sótt 16. október 2022.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 2,3 ”CV: Ulf Kristersson” Geymt 26 janúar 2021 í Wayback Machine. moderaterna.se. Skoðað 16. október 2022.
- ↑ „Fem saker du inte visste om Ulf Kristersson – Moderaternas nye partiledare“ (sænska). Expressen. Sótt 16. október 2022.
- ↑ ”Birgitta Eds liv”. Expressen. Skoðað 16. október 2022.
- ↑ Eric Rosén (13. ágúst 2012). „Ulf Kristersson: "Den svenska modellen är som apartheid" - Dagens Arena“ (sænska). Dagens Arena. Sótt 16. október 2022.
- ↑ ”Tidslinje: Det här är Ulf Kristersson”. Sydsvenskan. Skoðað 16. október 2022.
- ↑ 7,0 7,1 „Kommunikatören får förvalta arvet“ (sænska). Dagens Nyheter. 1. september 2017. Sótt 16. október 2022.
- ↑ „Kristersson kandiderar till M-ledare“ (sænska). Di.se. 1. september 2017.
- ↑ ”Ulf Kristersson föreslås bli ny M-ledare”. Aftonbladet. Skoðað 16. október 2022
- ↑ Kjartan Kjartansson (19. september 2022). „Leiðtogi hægrimanna fær stjórnarmyndunarumboð“. Vísir. Sótt 16. október 2022.
- ↑ Sigurjón Björn Torfason (16. október 2022). „Svíþjóðardemókratar verja nýja stjórn gegn vantrausti“. Fréttablaðið. Sótt 14. október 2022.
Fyrirrennari: Magdalena Andersson |
|
Eftirmaður: Enn í embætti |